Lendager

19. júlí 2024 | Hrönn Indriðadóttir

Sumarið 2021 flutti Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt, vinnustofu sína að Klapparstíg 25-27.

Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt
Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt

Sumarið 2021 flutti Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt, vinnustofu sína að Klapparstíg 25-27. Rýmið sem hún leigir af félaginu eru 80 fermetrar á annarri hæð. Húsið sker sig úr öðrum á svæðinu fyrir fallega bogadregna glugga sem setja sterkan svip á allt umhverfið en gluggarnir eru friðaðir. Auk þessa vekur anddyrið á jarðhæðinni aðdáun allra sem þar eiga leið um. Grænar upprunalegar flísar og gömul lyfta sem fer með hugann aftur í tíma. Ekki skemmir að ganga fram hjá glugga frægasta leigjanda hússins, Ara Gísla Bragasonar í Bókinni, þegar Arnhildur er heimsótt. Gamlar fallegar bækur, brosandi bóksalar, grænar flísar og fallegt rými einkennir húsnæðið Klapparstíg 25-27.

Arnhildur hlaut viðurkenningu sem frumkvöðull í mannvirkjagerð í ágúst 2023 og er hún fyrsti Íslendingurinn sem hlotið hefur viðurkenningu á því sviði. Auk þessa má nefna að á dögunum var hún tilnefnd til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir þverfaglegt samstarf með áherslu á endurvinnanlegt byggingarefni. Hún er fyrsti arkitektinn á Íslandi sem hefur fengið slíka tilnefningu.

Hvernig hefur ykkur liðið hér á Klapparstígnum?

,,Okkur líður mjög vel hér. Þetta er ,,grand“ hús sem stendur á horninu á þessum merkilegu götum Klapparstíg og Hverfisgötu. Oft líður mér eins og ég sé stödd í stórborg erlendis frekar en hér í miðri Reykjavíkur. Ég segi að það séu í raun hrein forréttindi að fá að vinna í þessu húsi. Okkur stóð til boða þessi skrifstofa sem hefur þá sérstöðu að vera hornskrifstofa með fallega bogadregna glugga alla hliðina sem gerir húsnæðið ekki bara bjart heldur er útsýnið yndislegt. Við erum á annarri hæð svo tengingin við lífið á götunni er mikið. Við sjáum til himins og um leið allt lífið á götunni. Það er nú varla hægt að biðja um meira.“

Hvernig hefur samstarfið við Eik fasteignafélag verið?

,,Frá fyrsta degi hefur það verið til fyrirmyndar. Þeir Kári og Magnús, sem hafa verið okkar menn hjá félaginu, haf alltaf leyst úr öllum málum fljótt og vel. Það sem hefur gerst síðar er að Eik fasteignafélag hefur farið í frekari samvinnu við okkur á sviði endurnýtingar efnis sem er ekki bara áhugavert heldur til mikillar fyrirmyndar.“

Þegar Arnhildur gerðist leigutaki hjá félaginu var það undir merkjum arkitektastofunnar Sap sem meðal annars er að vinna verkefni fyrir Félagsbústaði. Þetta er lítið verkefni við Vatnshólinn en þar er hugmyndin að lækka kolefnissporið um 30-40% í framkvæmdinni og endurnýta byggingarefni eins og kostur er. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkt er markvisst gert hér á landi en þetta þekktist auðvitað á Íslandi á árum áður og eru til dæmis útsjónarsamir bændur fyrirmynd í að endurnýta byggingarefni.“

Fyrir ári síðan urðu miklar breytingar hjá þeim þegar þau hófu samstarf við dönsku nýsköpunar- og arkitektastofunnar Lendager.

,,Það sem gerðist var að árið 2018 var haldin samkeppni um hönnun nýs hverfis í Gufunesi. Mér fannst mikið tækifæri í því að vinna með endurnýtingu efna þar sem Sorpa er staðsett á Gufunesi. Ég hafði séð verkefni dönsku arkitektarstofunnar Lendager og þeirra verkefni tengdust því sem ég var að vinna með. Ég sendi þeim einfaldlega póst og fékk svar um hæl um þau væru til í samstarf á þessu sviði sem við og gerðum. Úr varð að við lögðum m.a. til að afgangsefni úr Gufunesi yrði nýtt í nýjar byggingar og þetta var í raun og veru fyrsta stóra verkefnið þar sem stungið var upp á slíku fyrirkomulagi hér á Íslandi. Í framhaldinu fórum við út í frekari samvinnu og meðal annars erum við að vinna verkefni sem er fjölbýlishús fyrir Fasteignafélagið Iðu á Frakkastíg 1 sem er hluti af samkeppni sem við unnum hjá Reykjavíkurborgar um Grænar lóðir framtíðarinnar.  

Þannig að Lendager leigir í dag skrifstofurýmið af Eik fasteignafélagi?

,,Já, í raun er það þannig. Til að gera langa sögu stutta þá leiddi þessi samvinna til þess að ég á í dag 40% í útibúinu og rek þennan afleggjara frá Lendager hér á landi. Sú stofa hefur miklar hugsjónir á sviði endurvinnslu og endurnýtingu efnis og það fellur vel að okkar hugsjónum. Eftir að hafa kynnst þeim betur og hvernig þau vinna komumst við að því að við erum mjög samstíga um sýn okkar á mannvirkjagerð á tímum loftslagsbreytinga.“

Heldur þú að það verði miklar breytingar í því hvernig við umgöngumst efnivið til nýbyggingar í framtíðinni?

,,Borgir framtíðarinnar verða byggðar úr því efni sem við eigum til núna. Byggingarefni verða ekki flutt inn frá Kína og þau síðan sett saman og um leið verða þau ónýtanleg til endurvinnslu. Margir þekkja það að fara á Sorpu með samsett efni úr plasti og stáli og þau fest saman þannig að ekki er hægt að gera neitt við þau. Þessi efni ættu að vera bönnuð. Það ætti að leggja áherslu á innflutning efna sem eru endurnýtanleg. Við þurfum að hugsa um byggingar sem efnisbanka framtíðarinnar, bæði þær sem eru nú þegar til og einnig þær sem eru í byggingu núna.“

Í vor tók Lendager þátt í HönnunarMars með sýninguna Wasteland Ísland og þar varð til skemmtileg samvinna á milli þeirra og félagsins. 

,,Tilgangurinn var að veita gestum innsýn í daglega vinnu stofunnar þar sem áherslan er lögð á að nýta verkefni til þess að færa byggingariðnaðinn í átt að sjálfbærni og minni losun á kolefni. Hér á landi fer mikið af byggingarúrgangi í urðun eða endurvinnslu. Það er mikill ávinningur af því að nota aftur byggingar og efnið sem fellur til hér landi því þá þarf ekki að endurvinna efnið á sama tíma og þarf að framleiða efni. Um 40% af kolefnisspori okkar Íslendinga eru til komin vegna byggingariðnaðarins og þar af eru 45% vegna losunar við framleiðslu byggingarefna.

Við höfðum samband við Eik fasteignafélag og Gluggagerðina og unnum saman skemmtilegan vegg sem endaði svo hér á stofunni okkar. Eik þurfti að endurnýja glerið í Turninum í Smáratorg 3 vegna endurbóta á húsinu. Við fengum gler frá félaginu og timbur utan af pakkningum sem falla til hjá Húsasmiðjunni. Við höfðum samband við Gluggagerðina og fengum þá til að smíða glervegg úr þessu gleri og afgangs timbri sem við nýtum hér á skrifstofunni sem millivegg til að stúka að vinnurými. Auk þessa létum við smíða glugga úr sama efniviði og okkur telst til að þetta sé fyrstu glugginn sem er smíðaður á Íslandi úr eingöngu endurunnu efni. Okkar von er að þetta sé bara byrjunin á einhverri nýrri og spennandi vegferð.“

Arnhildur er fædd og uppalin á Húsavík. Hvað leiddi hana út á þessar brautir?

,,Ég er viss um að það að hafa alist upp á slíkum stað sem Húsavík er hafi kveikt á því hvað náttúran skiptir öllu máli í lífi okkar og það er okkar að vernda hana. Það lá nú einhvern veginn í loftinu að ég yrði arkitekt. Byrjaði reyndar á öfugum enda og eignaðist dóttur mína 17 ára, lærði tækniteiknun og vann á verkfræðistofum hér heima og í Noregi og það var ekki fyrr en um þrítugt að ég fór í Listaháskólann og lærði arkitektúr. Þaðan lá leiðin til Barcelona á Spáni og þar bjuggum við í þrjú ár. Við komum heim 2009 í hruninu og fluttum til Húsavíkur. Það var ekkert að gera í byggingum á þeim tíma svo ég opnaði litla vinnustofu og tók að mér ýmis verkefni. Aðstæður kölluðu á nýjar hagkvæmar og umhverfisvænar lausnir. Ég vann eitt slíkt verkefni með vini mínum fyrir norðan sem hafði opnað lítið gistihús. Hann tók það í gegn og við breyttum því og nýttum það byggingarefni sem var á staðnum og endurnýttum allt sem við gáum. Líklega var þetta byrjunin á því ævintýri sem ég lifi í dag.“

Til gamans má geta þess að litla stúlkan sem Arnhildur eignaðist 17 ára gömul, hún Björg Skarphéðinsdóttir, fatahönnuður og sérfræðingur í grafískri hönnun og þrívídd, starfar með móður sinni hjá Lendager. Sonur hennar, Arnar Skarphéðinsson, er að útskrifast sem master í arkitektúr frá LA í Bandaríkjunum en þau mæðgin hafa unnið sama í gegnum arkitektastofu Arnhildar Sap að ýmiskonar framtíðarhugmyndum í arkitektúr, nú nýlega verkefnið þeirra Lavaforming sem snýst um byggingarefni úr hrauni.

Ykkur hefur liðið vel hér á Klapparstígnum. Eru einhver áform um flutninga héðan?

,,Nei, hér viljum við vera. Þetta húsnæði hentar okkur mjög vel og öllum liður vel hér. Allt er eins og það á að vera. Það eru forréttindi að fá að vera í svona fallegu og vel byggðu húsi og samvinnan við Eik fasteignafélag er frábær. Það var gaman að fá að vinna með þeim að verkefninu Wasteland Ísland sem þétti bara hnútana. Okkur hefur staðið til boða ýmis húsnæði síðustu ár en við getum ekki hugsað okkur að flytja. Við erum að jafnaði þrjú til fimm sem vinnum á skrifstofunni og rýmið heldur mjög vel utan um okkur. 

Það er ekki verra að hafa þess dásamlegu bókabúð hans Ara Gísla niðri. Þegar við mætum á morgnana þá er oftar en ekki einhverja áhugaverðar gamlar bækur sem tengjast arkitektúr eða náttúrubækur á ofninum á ganginum. Við tökum þær gjarnan með okkur upp og gluggum í þær og oftar en ekki hafa þær orðið kveikjan að ýmsum hugmyndum og tengjast sterkt því sem við erum að gera. Við freistumst þess gjarnan að kaupa þær.

Það er líka svo skemmtilegt að danska sendiráðið er hér nánast beint á móti og þar er danski fáninn dreginn að húni á hverjum morgni. Okkur finnst það mjög viðeigandi að horfa til þeirra á morgnana og sjá danska fánann blakta í íslensku golunni. Lendager er jú íslenskt-danskt fyrirtæki,“ segir Arnhildur brosandi.