Expectus

8. apríl 2024 | Hrönn Indriðadóttir

Ráðgjafa – og hugbúnaðarfyrirtækið Expectus flutti um mitt ár 2023 í nýuppgert húsnæði að Suðurlandsbraut 10.

Helga Dögg Björgvinsdóttir rekstrarstjóri hjá Expectus og Gunnar Steinn Magnússon framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Timextender
Helga Dögg Björgvinsdóttir, rekstrarstjóri hjá Expectus, og Gunnar Steinn Magnússon, framkvæmdastjóri sölu- og marksðssviðs hjá Timextender.

Ráðgjafa – og hugbúnaðarfyrirtækið Expectus flutti um mitt ár 2023 í nýuppgert húsnæði að Suðurlandsbraut 10. Fyrirtækið fékk fjórðu hæðina óinnréttaða til umráða en í samvinnu við arkitekta og verkfræðinga fyrir tilstilli Eikar fasteignafélags hefur þessu hráa rými verið breytt í glæsilegt vinnurými með einstakt útsýni. 

Þetta 900 fermetra svæði er nýtt af rúmlega 50 manns sem vinna hjá þremur fyrirtækjum en Expectus, sem leigir húsnæðið, leigir út frá sér tvö rými til fyrrum dótturfélagsins Exmon Software og til Norda. Þetta eru þrjú aðskilin fyrirtæki og strax var hugsað út í að hægt væri að stýra aðgengi að fyrirtækjunum þremur. Í miðrýminu er stórt og gott eldhús þar sem allir starfsmenn borða saman daglega.

Helga Dögg Björgvinsdóttir og Gunnar Steinn Magnússon sögðust aðspurð mjög ánægð með húsnæðið og það hefði breytt miklu fyrir fyrirtækin að flytja í bæði mun stærra rými en þau voru í áður og ekki síður í rými sem var hannað að þeirra þörfum en starfsmenn fyrirtækjanna fengu að koma að og segja til um allt sem sneri að hönnuninni. 

,,Við fluttum hingað inn 19. maí 2023 og höfum brosað hringinn síðan“, segir Helga. ,,Hér er rými fyrir 70 manns en það býður upp á að enn frekari stækkun fyrirtækisins en við erum alltaf opin fyrir því að geta stækkað smám saman. Við erum ekki bara með mun meira rými, en við komum úr 340 fermetrum, heldur eru loftgæðin öll önnur og fyrrum hávaðavandamál úr sögunni. Það var lögð mikil vinna í hljóðvistina enda er hún til fyrirmyndar hér. Vinnusvæðið okkar er bæði fallegt, þægilegt og útsýnið ólýsanlegt. Enda var það svo að við fengum að hafa áhrif á alla hönnun, hvað við vildum og hvað hentaði okkur.“ 

,,Það er ákveðið forskot fyrir fyrirtæki að geta boðið starfsfólki upp á svona gott og glæsilegt húsnæði“ sagði Gunnar Steinn. ,,Við finnum það strax hvað það er auðveldara að fá gott fólk til starfa og hvað okkar fólk er mun ánægðara en áður.“ 

Fyrir utan starfsrýmin þá eru fimm hefðbundin fundarherbergi í rýminu auk tveggja ,,símaklefa“ sem ætlaðir eru fyrir stutta fjarfundi. 

Hvernig fyrirtæki er Expectus? 

,,Expectus hefur sérhæft sig í aðstoða fyrirtæki við að greina og bregðast við breytingum í sínu umhverfi, marka stefnu og koma henni í framkvæmd með því að nýta upplýsingatækni til að ná sem mestum árangri í rekstri. Expectus var stofnað árið 2009 en einkunnarorðin okkar hafa alltaf verið kraftur, heiðarleiki og samvinna. Vel yfir 200 viðskiptavinir úr flestum geirum atvinnulífsins nota lausnir frá Expectus til að taka gagndrifnar ákvarðanir. 

Það skiptir okkur miklu máli að leysa allan vanda hratt og vel, standast tímaáætlanir og bera ábyrgð á frammistöðu okkar. Hér ríkir mikil samvinna og stuðningur milli starfsmanna og við viljum líta svo á að við nýtum sameinaða styrkleika okkar til að ná að veita okkar viðskiptavinum fyrsta flokks þjónustu. Tæplega þrjátíu sérfræðingar starfa hjá fyrirtækinu á sviði tækni, stjórnunar og reksturs,“ segir Helga.  

Miklar breytingar hafa verið hjá Exmon síðustu ár en um er að ræða hugbúnaðarfyrirtæki. Gunnar Steinn var framkvæmdarstjóri bæði Expectus og Exmon en fyrir tveimur árum var ákveðið að leggja áherslu á aukna sókn á alþjóðlegum markaði hjá Exmon og var Gunnar Steinn fenginn til verksins. Afraksturinn var að fyrirtækið var að lokum sameinað dönsku fyrirtæki og er nú rúmlega 80 manna fyrirtæki en þar af starfa 11 manns hér á landi. 

,,Exmon var stofnað af Expectus árið 2014 en með aðskilinn rekstur. Hjá félaginu starfa sérfræðingar í hugbúnaðarþróun og -sölu sem vinna að hugbúnaðarlausninni Exmon sem er leiðandi lausn í gagnagæðum og gagnaumsjón. Forritið er notað til að finna villur og frávik í tölvukerfum og daglegum ferlum sem getur komið í veg fyrir tekjutap eða brotalamir í ferlum sem annars gætu farið fram hjá stjórnendum.“ 

Það eru ekki mörg fyrirtæki sem geta státað sig af því að hafa verið valið bæði Fyrirtæki ársins hjá VR og Framúrskarandi fyrirtæki hjá Credit info árlega síðustu ár. Er gott að vinna hér hjá ykkur? 
,,Já, það er mjög gott að vinna hér“, segja þau bæði brosandi. ,,Hér er lögð mikil áhersla á að öllum líði vel í vinnunni - alltaf. Expectus er fjölskyldumiðaður vinnustaður og við leggjum okkur fram við að skapa einstakt vinnuumhverfi og veita tækifæri til starfsþróunar. Það að hafa ráðist í að flytja hingað og nota tíma og orku starfsfólksins í að hanna þetta einstaka vinnusvæði er einmitt hluti af okkar fyrirtækjamenningu. Það er alltaf hlustað á þá sem vilja leggja eitthvað til málanna, á þá sem hafa skoðanir eins og var gert þegar ákveðið var að fara í að hanna nýtt og betra vinnusvæði. Öll fengu að segja sína skoðun og vera hluti af teyminu sem bjó þetta rými til sem við lifum og hrærumst í alla virka daga vikunnar.“