Itera

Eik fasteignafélag opnaði í lok júní skrifstofuhótelið Akkur að Ármúla 13. Skrifstofuhótelið er á besta stað í Múlunum en svæðið hefur um langt árabil verið eitt vinsælasta skrifstofusvæði borgarinnar. Skrifstofuhótelið er nýjung hjá félaginu þar sem boðið er upp á meiri þjónustu við leigutaka. Það er gætt öllum nútímaþægindum og er hentugt bæði fyrir einyrkja og smærri fyrirtæki en þar er að finna á þriðja tug skrifstofurýma, mismunandi að stærð á ríflega þúsund fermetra hæð. Leigutakar þar hafa aðgang að fullbúnum fundarherbergjum og ýmsum sethornum sem henta fyrir kaffispjall og þankahríð. Akkur er frábær valkostur fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem kjósa sveigjanleika og gæði án langtímaskuldbindingar. Við hittum Snæbjörn Inga Ingólfsson, framkvæmdastjóra Itera, í Akkri í Ármúlanum. Það má kalla Snæbjörn landnema, því hann og hans fyrirtæki, Itera, sem þýðir It-era eða tímabil upplýsingatækninnar, var fyrst til að flytja inn í Akkur.

Af hverju valdir þú að koma hingað inn og hvernig hefur þín reynsla verið af því að leigja aðstöðu í Akkri hjá Eik fasteignafélagi?

,,Ég valdi að koma hingað fyrst og fremst því mér leist gríðarlega vel á húsnæðið, það er bjart og allt nýuppgert. Það er miðsvæðis og auðvelt fyrir mig að taka á móti viðskiptavinum hér, nú eða heimsækja þá án þess að vera fastur í umferð heilu og hálfu dagana. Hér leigi ég allt sem þarfnast fyrir skrifstofu, er séð fyrir tölvutengingu og ekki síst er hér sameiginleg kaffivél sem kemur sér afar vel. Mín reynsla er hreint út sagt til fyrirmyndar og hér er að myndast notalegt samfélag fólks sem er í sömu aðstöðu og ég, því það er vel hægt að skapa fína vinnustaðamenningu inni í svona rými. Þetta er framtíðin, því flest fyrirtæki kjósa að leggja fjármagnið í rekstur frekar en að leggja pening í að kaupa húsgögn, tæki og tól. Einnig þarf ég ekki að hafa neinar áhyggjur af viðhaldi eða slíku, Eik fasteignafélag sér um allt slíkt og ég einbeiti mér að rekstrinum. Ég er einn á skrifstofunni en hef tök á því að bæta við 2-3 starfsmönnum inni í mitt rými, nú eða að leigja stærra pláss fyrir okkur ef til þess kemur. Svo má ekki gleyma búningaaðstöðu í kjallara hússins svo hægt er að stunda hreyfingu í hádeginu.”

Notar Itera skrifstofuhótel víðar en á Íslandi?

Itera gerir þetta mjög gjarnan þegar verið er að opna nýjar skrifstofur, í svona deiliskrifstofum, þar til að skrifstofan nær einhverjum vexti. Fjarvinna er orðin algengari og ekki endilega þörf á því að allir hafi sitt eigið skrifborð og/eða skrifstofu. Í höfuðstöðvum Itera í Osló eru starfsmenn um 200 og framundan er að flytja í minna skrifstofuhúsnæði með aðstöðu fyrir um helming starfsmanna. Þetta er orðin regla frekar en undantekning að starfsmenn komi t.d. bara einu sinni í viku á skrifstofuna og vinni þess á milli heima hjá sér eða bara hvar sem er.”

Itera, hvernig fyrirtæki er það og er það með starfstöðvar víða?

,,Itera er norskt upplýsingatæknifyrirtæki sem stofnað var fyrir u.þ.b. 30 árum og höfuðstöðvar þess eru í Osló. Það er á norska hlutabréfamarkaðnum og hefur nokkrum sinnum verið valið bjartasta vonin í upplýsingatækni og nýsköpun í Noregi. Á heimsvísu starfa um 700 manns fyrir Itera sem er með starfsemi á Norðurlöndunum og einnig með skrifstofur í Úkraínu, Slóvakíu, Tékklandi og í Póllandi. Það má segja frá því að það er áralöng viðskiptahefð á milli Noregs og Úkraínu og hafa æðstu stjórnarmenn Itera í Noregi farið nokkrar ferðir til Úkraínu eftir að stríðið skall á. Norsk-úkraínska viðskiptaráðið er mjög sterk eining og byggir á áralöngum mergi.”

Hvað með Ísland?

Itera hóf starfsemi hér á landi árið 2016 og opnaði formlega skrifstofu stofnaði íslenska kennitölu í október 2021. Það var gert í hagræðingarskyni fyrir viðskiptavini, það styttir boðleiðir og einfaldar sölu-og vinnuferlið hérlendis. Á Íslandi eru u.þ.b. 50 stöðugildi sem vinna fyrir Itera, allt sérfræðingar sem vinna í því að smíða og sníða hugbúnaðarkerfi fyrir viðskiptavini og er því kærkomin viðbót við þá flóru sem fyrir er. Hér eru allir í stafrænni umbreytingu (e. digital transformation) og mikill skortur á vinnuafli. Vegna umsvifa Itera erum við með stóran hóp sérfræðinga á okkar snærum sem geta komið að hugbúnaðargerð og rekstri tölvukerfa. Við getum bæði komið inn með teymi í fyrirtæki, leyst einstök verkefni, skrifað sértækan hugbúnað og líka skrifað nauðsynlegan hugbúnað frá a-ö. Sum fyrirtæki eru með hömlur á mannaráðningum en geta keypt utanaðkomandi þjónustu og þarkomum við sterk inn. Við aðstoðum viðskiptavini að komast inn á erlenda markaði, sérsníðum hugbúnað og aðstoðum við allt mögulegt sem snýst að hagræðingu, hagnaði og velgengni fyrirtækisins. Okkar sérhæfing er að aðstoða viðskiptavini við sjálfbærni og stafræn viðskipti, eins og slagorð okkar segir: ,,Gerðu gæfumuninn”. (e. Make a Difference). Við þjónustum m.a. Össur sem hefur verið með okkur í liði í nokkur ár, en við höfum líka verið í samstarfi við minni fyrirtæki og sprotafyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref í atvinnulífinu.”

Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér?

,,Það eru endalausir möguleikar í upplýsingatækninni og alltaf eitthvað nýtt til að hámarka þarfir og skilvirkni. Við sáum það greinilega í Covid þar sem að tækninni fleytti fram um nokkur ár á örfáum mánuðum. Allir voru sendir heim og það þurfti að hraða lausnum fyrir t.d. netverslun og þjónustu. Netverslun fór á flug, matvöru og aðra þjónustu mátti skyndilega nálgast á netinu, fá heimsendingu á mat frá bestu veitingastöðum bæjarins og tónleika heim í stofu voru orðnir að veruleika. Þetta má allt þakka tæknilausnum og hugbúnaði sem var smíðaður og endurbættur með hraði, því þörfin var svo mikil. Þetta er þróun sem er komin til að vera og ekkert sem bendir til afturhvarfs á þessu sviði. Ég fer t.d. sjaldan eða aldrei í matvöruverslanir, panta allt á netinu og fæ sent heim.”

Svo hvað gerir Snæbjörn Ingi Ingólfsson þegar hann er ekki að aðstoða fyrirtæki við að finna lausnir í hugbúnaðargeiranum?

,,Samhliða vinnu er ég í MBA námi við Háskóla Íslands og það tekur sinn tíma en er jafnframt mjög gefandi. Ég heyrði einmitt af skrifstofuhótelinu Akkri í gegnum einn samnemanda minn þar. Svo er ég fjölskyldumaður og nýt þess að eyða tíma með henni við leik og störf. Svo skrepp ég stundum norður í Mývatnssveit, þaðan sem ég er ættaður, þegar ég þarf að hlaða batteríin. Fer á skytterí og vinn líkamlega vinnu, kem svo aftur til borgarinnar, andlega endurhlaðinn og líkamlega útkeyrður.”

,,I love it!”