Arkþing Nordic

Arkitektastofan Arkþing Nordic flutti í glæsilegt húsnæði við Hallarmúla 4 í Reykjavík þann 1. desember 2020. Húsnæðið var hannað af arkitektum stofunnar með það að markmiði að styðja við skapandi starf og vellíðan starfsmanna. Öll aðstaða er til fyrirmyndar og með góðu rými til að taka á móti viðskiptavinum í glæsilegum og þægilegum fundarherbergjum að sögn Halls Kristmundssonar, verkefnastjóra hjá Arkþing Nordic. Stofan hefur yfir að ráða ríflega 700 fm en stofan hefur vaxið jafnt og þétt með auknum verkefnum. 

Arkþing byggir á gömlum grunni en sagt er að stofan hafi verið stofnuð 07.07.´70 þegar tveir ungir arkitektar, þeir Guðmundur Kr. Guðmundsson og Ólafur Sigurðsson, stofnuðu arkitektastofu í eigin nafni. Tuttugu árum síðar fékk stofan nafnið Arkþing þegar starfsemin var flutt yfir í Þingholtsstræti og Sigurður Hallgrímsson arkitekt og Hjörtur Pálsson byggingafræðingur gengu til liðs við stofuna. Stofan dafnaði í Þingholtunum og eftir tuttugu ára starfsemi þar voru starfsmenn orðnir tuttugu og húsnæðið sprungið. Stofan býr þó enn að staðsetningunni því hún dregur nafn sitt af hinni skemmtilegu götu Þingholtsstræti en á árum áður voru margar arkitektastofur kenndar við götuna sem þær stóðu við.

Í júní 2019 sameinaðist Arkþing inn í Nordic – office af Architecture sem er ein stærsta arkitektastofa á Norðurlöndunum með um 280 starfsmenn í Osló, Kaupmannahöfn og Reykjavík. Nordic hefur á síðustu árum staðið að nokkrum af stærstu verkefnum á Norðurlöndunum eins og Gardermoen flugvöllinn í Osló, ráðuneytishverfið í Osló og St. Olavs spítala í Þrándheimi og að auki hinum nýja alþjóðaflugvelli í Istanbul í Tyrklandi.

Með sameiningunni er Arkþing orðið hluti af stóru alþjóðlegu arkitektafyrirtæki og er því með sérstöðu á íslenskum markaði með auknum liðstyrk og góðu aðgengi að sérfræðiþekkingu til mannfrekra verkefna frá útibúum fyrirtækisins erlendis. Nordic býr yfir sérhæfingu á ýmsum sviðum sem erfitt er fyrir fyrirtæki á litlum markaði að tileinka sér. Hér má nefna svið eins og hönnun flugstöðva, heilsustofnanna auk tæknilegrar sérhæfingar eins og umhverfisvottanir, eignaumsjónir, vindgreiningar og sérhæfingu á ýmsum hönnunarforritum sem stofan notar. Við sameininguna var nafni Arkþing breytt í Arkþing Nordic.

Arkþing Nordic vinnur að fjölbreyttum hönnunarverkefnum um þessar mundir eins og nýbyggingu Landsbanka Íslands við Austurhöfn í Reykjavík en stofan bar sigur úr bítum í samkeppni um það verkefni árið 2018 í samvinnu við dönsku teiknistofuna CF Møller. Árið 2020 sigraði fyrirtækið samkeppni um hönnun á nýrri byggingu Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði sem er eitt af stærri verkefnum Arkþing Nordic um þessar mundir ásamt Byggingu Landsbankans. Auk þessa vann stofan að deiliskipulagi og hönnun íbúðabyggðar á RÚV-reitnum í Reykjavík. Af öðrum verkefnum sem unnið er að um þessar mundir má nefna endurnýjun Seðlabanka Íslands, viðbyggingu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem og stór íbúðarverkefni í Reykjavík eins og í Gufunesi, við Hlíðarenda, í Norðlingaholti og á Héðinsreit en Arkþing Nordic hefur nú aðkomu að hönnun og skipulagi um tvö þúsund íbúða en þar af eru um eitt þúsund íbúðir í frumhönnun.