Brút

Veitingastaðurinn Brút var opnaður í Eimskipafélagshúsinu þann 7. október 2021 en margir telja þessa byggingu vera ein af fallegri byggingum landsins. Það eru vinirnir Ólafur Örn Ólafsson vínsérfræðingur, Bragi Skaftason rekstrarstjóri og Ragnar Eiríksson yfirkokkur sem stofnuðu og eiga Brút. Þríeykið á að auki og rekur hinn vinsæla og verðlaunaða stað, Vínstúkan tíu sopar, á Laugavegi 27.

Hver voru tildrög þess að Brút varð til og það á þessum degi, Ólafur?

,,Ástæða þess að Brút opnaði fimmtudaginn 7. október var einfaldlega sú að þetta er dagurinn sem allt var tilbúið og ekki eftir neinu að bíða með opnun. Aftur á móti var meðgangan löng og mun lengri en við ætluðum okkur í fyrstu. 

Forsagan er sú að við Raggi erum búnir að vera vinir í fjölda ára og höfum verið í þessum bransa í mörg ár. Við kunnum kannski ekkert annað en að opna og reka veitingastaði. Ég hef komið að opnun margra staða síðustu árin og m.a. að opnun veitingastaðarins Dill í Norræna húsinu og Raggi var yfirkokkur þar. Á sama tíma hef ég horft á þetta fallega Eimskipafélagshús í yfir tíu ár og látið mig dreyma um að opna hér veitingastað. Húsið er ekki bara geysilega falleg, vel þekkt af öllum Íslendingum, hús sem grípur auga erlendra gesta strax heldur stendur það við þrjár götur með þessa risastóru glugga á alla vegu. Þau eru ekki mörg slík húsin hér á landi. En einhvern veginn var það svo að það var aldrei rétti tíminn til aðgerða þangað til að í upphafi árs 2019 að fasteignafélagið Eik hafði samband við mig og hafði áhuga á samvinnu. Ég var fljótur að segja já og hafði strax samband við Ragga og Braga sem voru til í þetta ævintýri. Ári síðar eða í janúar 2020 gerðum við leigusamning og hugmyndin var að opna hér stað í júní sama ár en eins og allir vita kom upp í millitíðinni eitt stykki heimsfaraldur og lítið hægt að gera og enginn að opna nýja veitingastaði á meðan. Við vissum og vonuðumst til að faraldrinum myndi ljúka á endanum og héldum okkur á floti á meðan á biðinni stóð með Vínstúkunni tíu sopum en við tók 18 mánaða meðganga sem lauk ekki fyrr en 7. október sl.“

Saga hússins

Eimskipafélagshúsið er sem fyrr segir með glæsilegri byggingum á landinu og allt frá því að það var byggt hefur það sett sterkan svip á miðbæ borgarinnar. Það stendur við Pósthússtræti 2 og er steinsteypuhús reist árið 1919 – 1921 og var með stærstu byggingum bæjarins á þeim tíma en grunnflötur þess var 370 fermetrar á fimm hæðum. Þetta er fyrsta húsið hér á landi sem var búið fólkslyftu. 

Hönnuður hússins var Guðjón Samúelsson, arkitekt og húsameistari ríkisins, en margir telja húsið eitt af hans meistaraverkum. Eimskipafélag Íslands reisti húsið fyrir skrifstofur félagsins og í meira en 80 ár gegndi það hlutverki höfuðstöðva félagsins. Til gamans má geta þess að kostnaður við bygginguna nam um einni milljón króna á þágildandi verðlagi.

Árið 1979 var húsið stækkað til vesturs í samræmi við frumteikningar Guðjón en hönnuður þess var Halldór H. Jónsson arkitekt. Húsið var friðað árið 1991.

Árið 2004 var það selt og í framhaldinu var því breytt í hótel sem fékk nafnið Radisson Blu 1919.

Hakakrossinn

Á þaki framhliðar Eimskipafélagshússins var Þórshamarinn, merki Eimskipafélagsins, sem Samúel Eggertsson hannaði á stofnári félagsins árið 1914. Þýski nasistaflokkurinn gerði hakakrossinn að merki flokksins við stofnun hans árið 1919 en Þórshamar Eimskipafélagsins snýr öfugt miðað við hakakross nasista. Krossinn á rætur sínar að rekja til norrænnar goðafræði og er einnig helgitákn hindúa. Vitað er að mörgum breskum hermönnum hafi brugðið við að sjá merkið þegar þeir hernámu landið í seinni heimsstyrjöldinni. Merkið var tekið niður og núna stendur 1919 á húsinu með vísun í byggingarár hússins.

 

Hönnun salarins

Ólafur Örn segist hafa verið mjög lánsamur að fátækifæri til að vinna í þessu fallega húsnæði. Allt samstarf við Eik hafi verið til fyrirmyndar og ekki síst þegar kom að hönnun rýmisins.

,,Eik hafði áður unnið með arkitektastofunni TP Bennet í London og voru þau fengin til verksins. Sjálfur fékk ég að hafa mikil áhrif á lokaútlit og má segja að staðurinn sé hannaður dálítið eftir því hvernig stað okkur langaði að opna í rýminu. Vegna Covid gátu arkitektarnir ekki komið til landsins svo öll vinnan fór fram með fjarfundum og þeir voru ófáir zoom fundirnir sem við urðum að halda. En við erum mjög ánægðir með útkomuna sannast sagna og mér finnst þessi veitingastaður vera sá fallegasti í bænum og sæma húsinu vel. Tilfinningin sem ég vildi ná fram var franskur bístró staður sem fólk þekkir svo vel frá Frakklandi þar sem þessi mikla lofthæð og þriggja metra háu gluggarnir fá að njóta sín eins og hægt er. Frá upphafi var ákveðið að hafa mikið af fallegum lifandi blómum á staðnum. Salirnir eru bjartir með ljósum og léttum húsgögnum. Okkar ósk er sú að gestum okkar líði vel hér og helst aðeins betur eftir að hafa komið hingað til okkar því að okkar starf er fyrst og fremst að gleðja fólk.

 

Það er sérstaklega gaman að finna strax á þessum fyrstu vikum hvað Íslendingar hafa tekið okkur vel og hvað það var fljótt að fyllast hjá okkur. Viðmótið var jákvætt allt frá byrjun og aðsóknin hefur verið mikil alla daga vikunnar. Hótelgestir hafa auðvitað heimsótt okkur líka en Brút er ekki hótelveitingastaður þannig lagað heldur veitingastaður sem vill svo til að er staðsettur í sama húsi og hótel.“

Fiskur og vín

Starfsfólk Brút er allt með mikla reynslu hvert á sínu sviði en hér vinnur fólk sem kemur víða að en það gera gestir staðarins líka. 

,,Starfsmenn okkar koma alls staðar að úr heiminum og hér er því talaður fjöldinn allur af tungumálum alla daga en það skiptir auðvitað engu máli hvaðan gott fólk kemur. Við leggjum metnað okkar í að vera alltaf með gott teymi. Nafn staðarins er þjált og virkar á öllum tungumálum. Brút getur þýtt svo margt og að sjálfsögðu tengja margir það við þurrt kampavín eða freyðivín en til gamans má geta þess að á vínlistanum okkar eru 200 vín og þar af eru 32 freyðandi.

Við leggjum aðal áherslu á fisk og viljum meina að það hafi vantað veitingastað eins og þennan í Reykjavík. Við höfum ferskan fisk á matseðlinum og viljum bjóða upp á fisktegundir sem eru sjaldséðar á borðum hér á landi og bjóðum upp á tegundir eins og beitukóng, íslenska hörpuskel, sæeyru og reyktan íslenskan ál svo eitthvað sé nefnt. Við munum leggja metnað í að halda áfram að bjóða upp á öðruvísi en spennandi íslenskt hráefni.

Að sjálfsögðu bjóðum við líka upp á kjöt og nú þegar er búið að ákveða matseðilinn fyrir aðventuna en þar munum við leggja áherslu á retró jólamat. Í forrétt verður boðið upp á rækjukokteil, þá graflax og loks appelsínu önd með waldorf salati í aðalrétt. Eftirréttirnir eru búnir til af franskri stúlku sem hefur sérhæft sig í kökugerðarlist en kökur frá henni og úrval af ostum verður ekið á milli borða í sérstökum eftirréttavagni. Hugmyndin er að fólk kannist við réttina en við munum að sjálfsögðu framreiða þá á nýjan og skemmtilegan hátt.“

Kaffi ó-le

Í sama húsi og veitingastaðurinn Brút er starfræktur hefur þríeykið opnað fallegan og spennandi kaffistað sem það kallar Kaffi ó-le og er opið alla daga frá 8 á morgnana til klukkan 17:00 á daginn.

,,Í samningaferlinu kom upp að hinum megin við hótelið væri fundarsalur sem mögulega langaði í nýtt hlutverk en það er gaman að segja frá því að á árunum 1992-4 rak ég ásamt fleirum hér kaffihús sem hét Café Au Lait og kemur nafnið á nýja kaffistaðinn þaðan. Markmiðið er að gestir okkar geti fengið besta kaffibolla bæjarins hér hjá okkur og að þeir þurfi ekki að bíða lengi eftir samloku eða einhverju að borða því að hér eru í boði tilbúnar samlokur sem eru búnar til úr japönsku mjólkurbrauði, skemmtileg nýjung sem fólk er mjög hrifið af.“

Selleri Port

Á Brút er rekið lítið listagallerí sem kallast Selleri Port og er það samstarfsverkefni Brút og Gallery Port. Þar munu listaverk eftir ungt og efnilegt listafólk vera á veggjum Brút, sérvalin af Gallery Port, en skipt verður reglulega um verk. Öll verkin eru til sölu og eru áhugasömum bent á að hafa samband við þjóna staðarins ef þeir hafa hug á að kaupa sér listaverk.