HS Orka

Í Turninum að Smáratorgi 3 er nútímalegt og glæsilegt skrifstofuhúsnæði í hjarta höfuðborgarsvæðins í eigu Eikar fasteignafélags. Í byggingunni er margvísleg starfsemi, enda leigutakar bæði fyrirtæki og einstaklingar og skrifstofurýmin af ýmsum stærðum og gerðum. Turninn er hæsta bygging Íslands samtals 78 metrar að hæð eða 20 hæðir.  Turninn var hannaður af Arkís arkitektum og byggður á árunum 2003-2007.

Á 17. hæð í Turninum í Kópavogi hefur HS Orka komið sér vel fyrir í opnu og björtu rými með útsýni til allra átta. Fyrirtækið flutti inn í húsið í lok árs 2021 og við hittum fyrir Sunnu Björg Helgadóttur verkfræðing og framkvæmdastjóra tæknissviðs HS Orku og tókum hana tali.

Afhverju Turninn?

,,Þegar Covid skall á voru starfsmenn okkar ýmist að vinna heima eins og hjá fjölda annarra fyrirtækja eða á skrifstofunni okkar í Svartsengi. Þar voru takmarkanir á fjölda þeirra sem gátu mætt til vinnu og skrifstofan hólfuð niður. Í ljósi þessa fórum við að skoða hvað við gætum gert og boðið fólkinu okkar uppá varðandi aðstöðu. Við höfðum samband við Eik fasteignafélag sem aðstoðaði okkur við leitina að hentugu skrifstofu húsnæði. Við gerðum ítarlega þarfagreiningu innan fyrirtækisins með tilliti til búsetu starfsmanna, staðsetningar, nálægrar þjónustu og verslana og ekki síst hugsuðum við um aðgengi og bílastæði. Inni í greininguna tókum við líka tillit til umferðar fyrir starfsmenn okkar til og frá vinnu. Niðurstaðan var að Turninn á Smáratorgi væri góður kosturinn fyrir okkur og hingað fluttum við í lok ársins 2021. Við erum með rúmlega 200 fm 2 rými með ólýsanlegu útsýni til allra átta. Plássið er opið og við erum einnig með tvö fín fundarherbergi sem eru mikið nýtt. Allir starfsmenn HS Orku hafa aðgang að rýminu og að jafnaði eru hér 8-12 manns sem mæta einn til tvo daga í viku, til að funda og/eða til að hitta samstarfsfólk, því enn vinna sumir að hluta til heima. Við erum með svo kallað ,,hot-desk” kerfi, þ.e. fólk sest niður með tölvuna sína við það skrifborð sem er laust. Þetta fyrirkomulag hefur reynst okkur afar vel og starfsmenn og stjórnendur almennt ánægðir. Ég er t.d. með starfstöð hér, í Svartsengi og í Reykjanesvirkjun og vinn stundum heima og það koma dagar þar sem ég hitti fáa því við erum svo dreifð. Það eru fjölmargir kostir við sveigjanleika í vinnu og ég vil meina að við nýtum tímann okkar oft betur, en það er ekki síður mikilvægt að teymin hittast reglulega.

Hér er líka mötuneyti á næstefstu hæð hússins sem sumir nýta sér, svo er sturtu- og búningsaðstaða í húsinu sem kemur sér vel, t.d. fyrir þau sem koma hjólandi í vinnu. Samstarf við húsvörð er mjög gott og ef eitthvað hefur komið upp á hefur það verið leyst hratt og örugglega og við höfum rætt við Eik um að skala húsnæðið til eftir þörfum og það hefur verið tekið vel í það.”

Hvað felur það í sér að vera framkvæmdastjóri tæknisviðs HS Orku?

,,Mitt starf felst meðal annars í að stýra stórum fjárfestingaverkefnum ásamt ýmsu öðru. Við á tæknisviði vinnum náið með verkfræðistofum og ýmsum verktökum. Við erum að leggja lokahönd á stækkun Reykjanesvirkjunnar og erum að hefjast handa við næsta verkefni, sem er endurnýjun á gömlum búnaði sem og stækkun virkjunarinnar í Svartsengi. Verkefni af þessu tagi taka mörg ár, allt að 10 ár, í vinnslu og sammælast vel stefnu fyrirtækisins um betri nýtni og aukningu í heildarafköstum. Þetta er langhlaup og krefst mikillar þolinmæði og undirbúnings, en er afskaplega áhugavert og skemmtilegt ferli, þó það séu vissulega tækifæri til að gera ferlið skilvirkara. Það eru margir kostir fyrir okkur að hafa skrifstofurými miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu, sem hægt er að nota til að funda m.a. með samstarfsaðilum og það eykur einnig svigrúm starfsmanna til að keyra ekki alltaf í Svartsengi. Við leggjum þó áherslu á að í Svartsengi eru okkar aðalhöfuðstöðvar, enda á fyrirtækið rætur sínar að rekja þangað, en þar hófum við starfsemi fyrir um 45 árum síðan. Aðalstöðvarnar í Svartsengi eru mjög glæsilegar og fólki finnst gaman að koma þangað og margir erlendir gestir okkar nýta tækifærið og skella sér í Bláa lónið að fundi loknum, sem er við hliðina á, og hluti af Auðlindagarði HS Orku.

Auðlindagarðurinn

,,Orkugeirinn er mjög spennandi umhverfi að starfa við og áhugavert að skoða sögu HS Orku. Frá upphafi hefur verið lögð áhersla hjá fyrirtækinu að nýta sem best alla strauma sem falla til við framleiðslu fyrirtækisins á raforku og heitu vatni. Auðlindagarður HS Orku er hugarfóstur Alberts Albertssonar sem hóf störf hjá fyrirtækinu árið 1976 en er nú að komast á eftirlaun. Albert er frumkvöðull á heimsvísu á þessu sviði og hefur haft það að leiðarljósi að búa til samfélag án sóunar, þar sem hringrásarkerfið er í fyrirrúmi og allt það sem fellur til við vinnslu jarðhitans er nýtt. Auðlindagarður HS Orku er samfélag fyrirtækja, sem eiga það sameigilegt að nota bæði raforku og aðra strauma beint frá jarðvarmavirkjunum HS Orku. Albert var sæmdur riddarakrossinum árið 2018 fyrir að vera frumkvöðull á sviði nýtingar jarðhita og hefur Auðlindagarðurinn byggst upp við orkuverin okkar á Suðurnesjunum og er einstakur á heimsvísu, sem við erum afar stolt af.”

Áskoranir orkugeirans

,,Að starfa í orkugeiranum er mjög spennandi og óteljandi áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Orkan er ekki endalaus og því mikilvægt að leita allra leiða til að nýta hana sem best svo að sem minnst fari til spillis. Nýsköpun, þróun og nýting hefur verið okkar hjartans mál frá upphafi og að finna leiðir til að endurnýta alla affalsorku og aðra nýtanlega strauma. Við höfum verið leiðandi í sölu á grænni orku til bæði heimila og fyrirtækja í áratugi og stefnum ótrauð áfram því góða verki sem þegar er hafið.