Tannlæknar Reykjavík í Kópavogi

Fyrirtækið Tannlæknar Reykjavík flutti í Holtasmára 1 í Kópavogi á 4ðu hæð haustið 2020. Húsnæðið var hrátt svo eigandinn, Kolbeinn Viðar Jónsson, gat hannað og innréttað húsnæðið eins og hann taldi henta sínu fyrirtæki best þannig að segja má að hver fermetri er nýttur sem allra best fyrir þá starfsemi sem þar fer fram. Húsnæðið er því hannað að þörfum starfseminnar, það er nýtt skynsamlega en um leið afar smekklega. Biðstofan er björt og falleg, aðgengi gott og auk þess hefur verið hugsað fyrir yngri kynslóðina en nokkur borð og stólar eru þar í ,,réttri stærð“. 

En hvers vegna flytur fyrirtæki, sem heitir því skemmtilega nafni Tannlæknar Reykjavík, í Kópavog? 

,,Við vorum búin að vera í tæp tíu ár í Hátúni í Reykjavík en húsnæðið var orðið gamalt og lúið, þar var engin lyfta svo aðgengið var ekki boðlegt fyrir okkar viðskiptavini og okkur langaði að vera meira miðsvæðis. Mig hafði lengi langað að vera á svæði þar sem ólíka heilbrigðisstarfsemi væri að finna og þegar mér bauðst húsnæði í húsi Hjartaverndar, í húsinu með stóra hjartað, ákvað ég að nú væri rétti tíminn til að breyta til. Það er auðvitað þannig að flestir vita hvar ,,húsið með stóra hjartað“ er staðsett svo það skemmir ekki fyrir. Auk þessa má nefna að það er nóg af bílastæðum í kringum húsið, stór og rúmgóður bílakjallari fyrir starfsmenn, rúmgóð lyfta og þetta er bæði og vel hannað fallegt húsnæði. Viðskiptavinir okkar eru almennt mjög ánægðir með nýja staðinn og við töpuðum ekki einum einasta við flutninginn en margir nýir hafa bæst við þetta síðasta ár.“

Tannlæknar Reykjavík er fyrirtæki Kolbeins en hjá fyrirtækinu starfa sjö tannlæknar, fjórir aðstoðarmenn tannlækna, einn móttökuritari og einn rótfyllingarsérfræðingur en hann starfar sjálfstætt en í samvinnu við fyrirtækið. Einnig eru tveir tannsmiðir starfandi á hæðinni. Hæðin var tóm þegar þeir fengu það afhent en þannig vildi Kolbeinn einmitt hafa það.

,,Við fengum 350 fermetra til að vinna með og það eru ákveðin forréttindi að taka við alveg hráu húsnæði og fá þannig tækifæri til að hanna það og innrétta eftir þörfum starfseminnar. Ég fékk mágkonu mína, Sigríði Ólafsdóttur, arkitekt hjá Grímaarkitektar, til að hanna húsnæðið með mér en ég hafði mjög ákveðnar skoðanir á því hvernig ég vildi hafa það. Með þessari samvinnu var hægt að uppfylla þarfir okkar tannlæknanna, húsnæðið nýtt til fullnustu og það er ekki verra að fá vinna daglega í svona fallegu rými.“

Hver var ástæðan fyrir því að þú valdir tannlækningar að ævistarfi?

,,Mig langaði alltaf að nema við Háskóla Íslands en ég er og hef alltaf haft mikinn áhuga á að vinna með höndunum svo það var bara tvennt sem kom til greina að mínu mati og það var annað hvort að gerast tannlæknir eða skurðlæknir. Tannlæknirinn varð ofan á og ég sé svo sannarlega ekki eftir því. Ég útskrifaðist árið 2010 svo ég er búinn að starfa við fagið í rúm ellefu ár. Þetta er skemmtilegt starf, maður hittir margt skemmtilegt fólk á hverjum degi en annar kostur er að það er mikil nýjung í faginu sem kallar á sífellda endurmenntun. Það koma ekki bara ný efni á markaðinn reglulega heldur ný tæki og tækni sem kalla á að það er nauðsynlegt að halda sér við og það gerum við með því að sækja námskeið og fara á ráðstefnur.“

Tannlæknar Reykjavík er opin daglega frá 8 – 17. Eru þetta langir vinnudagar hjá þér?

,,Já og nei. Ég vinn hér frá 9 – 16 alla daga en þá tekur við annað af tveimur áhugamálum mínum en það er að hanna og byggja atvinnuhúsnæði. Ég er með nokkur slík verk í gangi. Flestir myndu því kannski segja að ég ynni langan vinnudag þar sem sú vinna/áhugamál tekur við eftir að stofuvinnunni lýkur.

Hitt áhugamálið er það að við fjölskyldan erum mikið útivistarfólk og við viljum nýta eins mikinn tíma og við getum saman í útiveru. Við erum mikið á fjallahjólum ásamt öðru sporti og ferðumst um Ísland eins mikið og við getum í hjólhýsinu okkar. Í þessum ferðum eru gjarnan, auk okkar hjóna börnin okkar tvö, foreldrar mínir og systkini ásamt þeirra fjölskyldum. Auk þessa erum við hjónin mikið í crossfit en við stórfjölskyldan eigum það áhugamál líka sameiginlegt. Systir mín, Anníe Mist, hefur haft mikil áhrif á okkur í þeim málum og það er henni að þakka hvað við erum öll á kafi í crossfit. Það eru forréttindi að eiga áhugamál þar sem stórfjölskyldan sameinast en eins og einhver góður maður sagði þá eru þeir hlutir sem skipta mestu máli í lífinu ekki hlutir. Samvera vina og fjölskyldu er það sem skiptir máli.“