Toppaðu þig með Fjallafélaginu

Fjallafélagið flutti nýlega inn í skemmtilegt húsnæði í Skeifunni 19 í Reykjavík þar sem félagið deilir hæð með öðrum frumkvöðlum. Þó grunnur Fjallafélagsins sé í raun og sanni frumkvöðlastarf þá er hér um tólf ára gamalt fyrirtæki að ræða. Það var stofnað árið 2009 af Haraldi Erni Ólafssyni, sem flestir landsmenn þekkja, en hefur hann klifið bæði fleiri og hærri fjöll síðustu 20 árin en flest allir samlandar hans eða fjöll eins og Mount Everest, Mount McKinley, Elbrus, Kilimanjaro, Mount Blanc, Aconcagua auk þess að hafa farið á Norðurpólinn, Suðurpólinn og Grænlandsjökul svo eitthvað sé nefnt. Þeir eru þó tveir sem standa að Fjallafélaginu því árið 2012 kom Örvar Þór, bróðir Haralds, inn í félagið og hafa þeir bræður byggt félagið upp í sameiningu. 

Aðspurður sagði Haraldur að fyrirtækið stæði á skemmtilegum tímamótum um þessar mundir sem var ástæða þess að þeir leituðu til Eikar eftir hentugu húsnæði.

,,Þó að fyrirtækið hafi verið stofnaði fyrir tólf árum þá var það alltaf áhugamál hjá okkur en við höfum unnið önnur störf samhliða rekstri Fjallafélagsins. Áhugi á ferðunum okkar hefur aukist gífurlega svo við urðum að breyta til að gera þetta af fullri alvöru. Við fundum þetta frábæra húsnæði sem hentar okkar starfsemi fullkomlega. Staðsetningin er góð, aðgengi til fyrirmyndar og nóg af bílastæðum. Sameiginlega aðstaðan er góð og öll umgjörðin í kringum okkur er flott. Á hæðinni okkar er að finna skemmtilegt samfélag sem samanstendur af skapandi fyrirtækum og áhugaverðum frumkvöðlum. Þetta er gott samfélag ólíkra fyrirtækja sem nær að dafna í fallegu og góðu umhverfi.“

Hvað er Fjallafélagið?

,,Fjallafélagið er fyrirtæki sem sérhæfir sig í ferðum á hæstu og erfiðustu tinda Íslands sem og erlendis en auk þess er boðið upp á æfingagöngur á lægri og auðveldari fjöll. Okkar markmið er að skipuleggja vandaðar en ekki síst skemmtilegar fjallaferðir. Við pössum okkur á að hafa fagmennsku sem leiðarljós á öllum sviðum en um leið að fjallafélagar upplifi samspil manns og náttúru á sterkan og jákvæðan hátt.

Við segjum oft að Fjallafélagið sé í raun meira eins og vinahópur en fyrirtæki sem nýtur  útiveru en í gegnum náttúruna náum við að upplifa ævintýrin saman og sterk vináttubönd hafa myndast í gegnum árin.“

Fjallafélagið býður ekki bara upp á ferðir innanlends, eins og  að fara á Geitlandsjökul á gönguskíðum,  heldur eru önnur lönd heimsótt og fjöll gengin þar og er t.d. fyrirhuguð ferð á Kilimanjaro í febrúar 2022. Auk þessa má nefna afar vinsæl gönguskíðanámskeið en þar er kennt hvernig hægt er að fara út fyrir brautina og gengið frjálst um ótroðnar slóðir. Markmiðið með því námskeiði er að þátttakendur öðlist góðan grunn í að ferðast á skíðum og hafi þekkingu til að fara í dagsferðir á utanbrautar gönguskíðum á eigin vegum eða með Skíðabandalaginu sem er skíðahópur innan Fjallafélagsins.

Fjallafélagið hefur boðið upp á fjallaáskorun allt frá árinu 2010 en þar varð til hópur sem gengur saman allt árið um kring. Í hverjum mánuði eru farnar tvær göngur, á miðvikudagskvöldum og á laugardögum en á tímabilinu maí fram í ágúst eru ferðirnar lengri og þá eru helgarnar notaðar og gist í eina eða fleiri nætur. Metnaður er lagður í að bjóða alltaf upp á spennandi fjallgönguverkefni sem Fjallafélagið hefur ekki farið í áður. Dagskráin er fjölbreytt og passað er upp á að ganga jafnt á þekkt sem og minna þekkt fjöll og erfiðleikastigið fjölbreytt. Segja má að fjallaáskorunin sé sniðin fyrir þá sem vilja gera útivist og fjallgöngur að lífsstíl og halda sér þannig gangandi allt árið.

Hver er bakgrunnur ykkar bræðra – ólust þið upp við mikla útivist og fjallgöngur?

 ,,Foreldrar okkar ferðuðust mikið með okkur alla tíð og afi minn og amma, Haraldur Matthíasson og Kristín Ólafsdóttir, voru miklir brautryðjendur og ferðuðust alla tíð mikið um landið. Þegar ég var 14 ára kynntist ég klifur íþróttinni og þá var ekki til baka snúið og ég hef verið upp á fjöllum síðan. Það leiddi m.a. til þess að ég var atvinnumaður í fjallamennsku í tvö ár þar sem ég gekk á fjöll og hélt auk þess fjölda fyrirlestra um fjallgöngur og útivist. Örvar bróðir minn hefur verið haldinn sinni fjallabakteríu frá því hann gekk fyrst yfir Vatnajökul 16 ára gamall. 

Fjallafélagið varð í raun til vegna þess að mig langaði að fara á fjöll, stunda útiveru, með skemmtilegu fólki og það hef ég gert allar götur síðan félagið var stofnað. Leiðarstefið er að njóta og það er það sem þetta gengur út á. Hvort sem við erum að ganga á fjöll á Íslandi eða í Frakklandi, vera á skíðum á jöklum eða utan brauta, hjóla á fjallahjólum eða klifra í klettum hérlendis eða erlendis. Það sem hefur gerst að þeir sem hafa kynnst Fjallafélaginu hafa orðið vinir fyrir lífstíð og hafa haldið áfram að hittast og njóta saman. Það hætta fáir þegar þeir eru komnir á bragðið.“

Haraldur er menntaður lögfræðingur og vann sem slíkur sl. tíu ár í Íslandsbanka og Örvar er viðskiptafræðingur að mennt og hefur starfað sem slíkur síðustu árin. Báðir eru þeir þó forfallnir útivistarmenn.

,,Ég fann að þegar ég var atvinnumaður í fjallamennsku þá vantaði mig eitthvað meira áreiti fyrir heilann og ákvað þess vegna að snúa mér aftur að lögfræðistörfum. Eftir að Covid skall á ákvað ég að breyta aftur til og fylgja þeirri gífurlegu aukningu sem hefur orðið hjá okkur í Fjallafélaginu. Öll námskeið eru meira og minna full og ásóknin mikil og eykst stöðugt. Ástæðuna má ekki síst rekja til þess að tengslin við náttúruna hefur vaxið jafnt og þétt og þörfin hefur aukist vegna þessa mikla áreitis sem við búum við í heiminum í dag með samfélagsmiðlana, snjallsíma og mikla tölvunotkun. Þörfin fyrir svona félagsskap mun bara aukast.

Þetta eru því skemmtileg tímamót á nýjum og spennandi stað sem býður upp á fleiri spennandi ævintýri. Maður þarf alltaf að vera tilbúinn að fylgja hjartanu og það er ég að gera um þessar mundir.“